Stefnumót í Spilavinum: Spil fyrir 2

Skoðað: 15

Órjúfanlegur hluti af undirbúningi fyrir öll ferðalög heimilisins er að velja og pakka spilunum sem á að taka með. Það fá allir að hafa skoðun, og við reynum að velja spil sem henta fyrir sem flest tækifæri. Þetta á við hvort sem við erum að fara öll fjölskyldan (5 manns, yngsti leikmaðurinn 12 ára) eða bara ég og frúin.

Við erum svo heppin að eiga vini sem geta (og vilja) lánað okkur sumarbústað sem við gerum stundum yfir helgi, bara við tvö. Spilin sem við tökum með okkur í þannig ferð eru aðeins öðruvísi. Þangað rata engin fjörug hópaspil, partíspil eða blekkingarspil. Á myndinni hér að neðan eru spil sem Linda tók til fyrir okkur tvö úr spilaskápnum heima.

Bunki af spilum sem henta fyrir stefnumót úr spilasafni Þorra og Lindu.
Spil sem henta vel fyrir stefnumót úr spilasafni Þorra og Lindu.

Þarna eru tvö af uppáhaldsspilunum okkar, bæði í þyngri kantinum og eru um klukkutíma löng, Concordia og Wingspan. Bæði henta 2-5 leikmönnum en eru fullkomin fyrir tvo. Ofan á þeim er nýlegt spil í safninu okkar, 7 Wonders: Architects, sem fer líka með okkur í önnur fjölskyldufrí því það er stutt og aðgengilegt, hentar fyrir allt að 7 að spila, og maður er enga stund að stilla því upp. Það er líka ljúft 2ja manna spil.

Litlu spilin eru spiluð oftar

Litlu spilin 3 þar ofaná eru Hanamikoji, Encore, og Schotten Totten. Öll eru þau þægileg og stutt, þó Hanamikoji sé líklega þyngst af þeim þó það sé alls ekki þungt sem slíkt. Í Hanamikoji er ofboðslega flott gangverk sem knýr mann til að bjóða andstæðingnum spil af hendi og fær svo sjálfur afganginn. Hannað fyrir tvo leikmenn eingöngu, og hefur verið spilað ég veit ekki hvað oft af okkur hjónunum.

Schotten Totten er líka hannað fyrir tvo leikmenn eingöngu, og hefur líklega verið mest spilað af mér og Rögnu, dóttur minni (12). Einfalt og skemmtilegt sett-safnara spil þar sem við reynum að sigra 5 af níu settum hvors annars. Annað okkar getur alltaf platað hitt í eitt til þrjú Schotten Totten.

Á milli Schotten Totten og Hanamikoji er svo instant klassík á heimilinu, Encore. Kastað-og-krotað (e. roll-and-write) spil þar sem við köstum teningum og merkjum hvert fyrir sig á blöðin okkar. Við spændum í gegnum fyrstu blokkina og erum fegin að það er verið að framleiða blokkir sem hægt er að bæta við. Þetta hentar 2-6 leikmönnum og ratar út um allt með fjölskyldunni.

Nokkur vel valin tveggja manna spil úr spilasafni Spilavina.
Brot af spilum sem henta fyrir tvo úr spilasafni Spilavina.

Eitt stærsta spilasafn landsins hentar fyrir stefnumót

Þegar þarf svo að pakka spilum fyrir ferðalög, stutt eða löng, þá búum við svo vel að hafa aðgang að einu stærsta spilasafni landsins. Þessu í kjallaranum á Spilavinum. Þar er gífurlega mikið af spilum sem henta öllum stærðum og gerðum af fólki. Hér eru nokkur góð tveggja manna spil sem við gripum af handahófi fyrir myndatökuna (ég sé núna að Linda gleymdi 7 Wonders: Duel úr spilasafninu heima — frábært tveggja manna spil, hálftíma langt og í þyngri kantinum). Það skal segjast að þetta er alls ekki tæmandi listi og af nógu að taka í spilasafni Spilavina :)

Stefnumót í Spilavinum

Það er því tilvalið að taka stefnumótið í Spilavinum og njóta þess að geta valið spil sem henta hvaða stemmningu sem þið eruð í. Létt og einfalt, eitthvað sem leyfir kænsku og skipulag, eða bara bæði og allt þar á milli. Flest spilin á myndinni taka í kringum 30 mínútur að spila — jafnvel minna.

Í kjallaranum er kósí stemmning og stór spilaborð, og uppi eru nett tveggja manna borð á bak við barinn, þar sem hægt er að fá kaffi, kakó, allskonar te, gos, ískaldan bjór af krana og frábært úrval af óáfengum bjór. Hægt er að fá sér grillaðar samlokur, eða panta mat frá Hananum! Allt sem þarf fyrir skemmtilegt spilakvöld er í Spilavinum.

Á Valentínusardag er 2 fyrir 1 aðgangur í spilasafnið. Njótið stefnumótsins.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;