Lýsing

Árið 1922 bauð Mr. MacDowel, þekktur stjörnufræðingur, hóp miðla til sín í von um að leysa ráðgátuna um hvað raunverulega gerðist í sveitasetrinu sínu í Skotlandi. Leikmenn hafa 7 klukkustundir til að túlka sýnir frá draug sem vonast til að muna hver það var sem myrti hann, hvar hann dó og hvernig hann var myrtur.

Þetta er samvinnuspil þar sem leikmenn eru miðlar en einn leikmaður er í hlutverki draugsins. Draugurinn lætur leikmenn hafa falleg spil sem þeir þurfa svo að túlka rétt. Mysterium er þannig líkt bæði Clue og Dixit.

Spilið inniheldur 192 gullfalleg spil sem skiptast niður í fólk, hluti, staði í húsinu og svo draumsýnir sem draugurinn notar til að koma einhverju á framfæri. Því draugurinn sjálfur má ekkert tala. Hann verður að tala með spilunum og vona að miðlarnir túlki rétt það sem hann er að segja.