Þær spila bæði rommý og veiðimann

Skoðað: 11

Að ljúka deginum á því að grípa í spil er góð fjölskyldustund. Spilavinir við Langholtsveg í Reykjavík bjóða fjölbreytt úrval af spilum.

Fyrir börn og foreldra getur það verið góð samverustund að dagsönnum loknum að grípa í spil fyrir svefninn. Ræða þar hvað gerst hefur skemmtilegt yfir daginn um leið og teknir eru nokkrir hringir,“ segir Svanhildur Eva Stefánsdóttir sem rekur verslunina Spilavini við Langholtsveg í Reykjavík.

Stríðshetjur í forgrunni

Verslunin Spilavinir var opnuð fyrir þremur árum og er sérverslun með spil, púsluspil og þrautir. „Viðtökur voru strax mjög góðar. Fólk var ánægt með að fá sérverslun á þessu sviði, meðal annars vegna þess að við leggjum okkur fram um að vera með spil fyrir alla fjölskylduna,“ segir Svanhildur Eva Stefánsdóttir sem á og rekur verslunina ásamt Lindu Rós Ragnarsdóttur. Báðar eiga þær þrjú börn sem eru á dagmömmu-, leikskóla- og grunn- skólaaldri og þekkja því vel hvaða spilum krakkar vilja kynnast.

„Spilin sem við erum með eru fyrir yngst tveggja ára og síðan alveg upp úr,“ segir Svanhildur og bætir við að þegar hún var stelpa hafi slönguspilin svo nefndu verið vinsæl. Þar hafi keppnin snúist um að komast af einum reit á annan án þess að falla niður um reiti í slöngukjafti. Í dag njóti spilið Stratego mikilla vinsælda og þar séu stjörnustríðshetjur í forgrunni en áður hafi það vísast verið marskálkar og hertogar.

Spilað á bekkjakvöldum

„Við kunnum flest spilin og getum því kennt fólki að spila á spilin sem það kaupir. Það getur verið gott að fá kennslu og þar með tilfinningu fyrir spili á nokkrum mínútum,“ segir Svanhildur og bætir við að í Spilavinum sé aðstaða til að koma og grípa í spil, sem sé vinsælt hjá krökkunum í hverfinu. Einnig er hægt að fá Spilavini á bekkjarkvöld í skólum. Þá mæta þær stöllur með spil af hinum ýmsu gerðum og kenna börnum og foreldrum á ný og skemmtileg spil.

„Þetta höfum við gert einfaldlega til að gefa fólki kost á að kynnast skemmtilegum spilum og eiga ánægjustund með barninu sínu. Hefur þessi dægradvöl fallið í góðan jarðveg. Þarna kynnast börnin líka nýjum spilum en auk erum við með Spilakvöld í versluninni, en þar hef ég líka verið að kenna fullorðnum jafnt á stór borðspil og klassísk spilastokkaspil, á borð við rommý og veiðimann.“

sbs@mbl.is // Mynd: Morgunblaðið/Golli

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;