Sumarmót í Spilavinum: Partners

Skoðað: 9

Í gegnum tíðina hafa verið haldin allskonar mót í Spilavinum, í alls konar spilum. Helst er að nefna Íslandsmeistaramótið í Carcassonne sem var fyrst haldið árið 2008, þar sem sigurvegarinn fær keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í Carcassonne sem er haldið í risastórri spilasýningu í Þýskalandi, Essen Messen í október ár hvert. Önnur spil sem hefur verið keppt í eru Dominon, Ticket to Ride, Heckmeck, Pandemic, KingDomino, Azul, Patchwork, 7 Wonders, Concordia, og jafnvel Terraforming Mars.

Síðast í gær héldum við vel heppnað Partners mót, þar sem var þétt setið og frábær stemmning, enda gaman að geta boðið upp á kaffiveitingar og bjór af kaffihúsinu okkar, Spilakaffi. Keppendur voru alls 24, eða 12 lið þar sem Partners er (eins og nafnið gefur til kynna) paraspil. Sum spilin voru spiluð mjög hratt og náðust úrslit í því stysta á aðeins 10 mínútum, en aðrir bardagar voru harðari og tóku lengri tíma, allt að 50 mínútum. Yfir mótinu vakti Steingerður Lóa, sem leiðbeindi með reglur og leysti úr vafaatriðum sem komu upp.

Sigurvegarar mótsins

Sigurvegarar mótsins voru Freyja Lind & Ísak Olsen, sem var ótvíræð niðurstaða eftir þrjá leiki, þar sem þau voru eina liðið sem vann alla sína leiki. Í öðru sæti voru Katrín Rósa Eðvaldsdóttir og Eirún (með i) Eðvaldsdóttir. Þriðja sætið vermdu þau Eyrún Halla Kristjánsdóttir og Friðrik Ottó Friðriksson.

Búið er að ákveða að næsta mót verður í Dominion, en tímasetningin verður auglýst síðar. Fylgist með Spilavinum á Facebook til að fá fréttir af því.

Það er til Partners, svo er til Partners, og líka Partners

Spilið sem keppt var í í gær er upprunalega útgáfan af Partners, en síðan þá hafa komið út tvær aðrar útgáfur: Partners+ og Partners Duo. Eins og var nefnt ofar, þá er Partners paraspil, sem þýðir að það þarf fjóra leikmenn í spilið — hvorki fleiri né færri. Svo kom út Partners+ sem þýddi að nú gátu þrjú pör spilað saman, alls sex leikmenn. Í vor kom svo nýjasta útgáfan, Partners Duo, sem er tveggja manna spil.

Þar sem Partners er gífurlega vinsælt og mikið spilað, þá var mikil gleði þegar hægt var að versla spilastokkana eingöngu, þar sem spilin voru orðin þvæld og mikið notuð á flestum heimilum.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;