Spil í leik og kennslu

Skoðað: 64

Þetta var gaman. Ég lærði ekki neitt!

Einu sinni voru Linda og Svanhildur, stofnendur og eigendur Spilavina, að ganga frá eftir vel heppnaða spilastund í grunnskóla, þegar þær heyrðu samtal tveggja nemenda á leið út úr stofunni. Nemendurnir voru glaðir í bragði og greinilega sáttir með spilastundina. Það var svo staðfest þegar annar nemandinn sagði við hinn: „Þetta var gaman, ég lærði ekki neitt!“

orchard magic maths 03

Fyrir utan ánægjuna við að skemmta þessum og fleiri nemendum í gegnum árin með alls kyns spilum, þá var sérstaklega skemmtilegt að heyra þetta því nemendurnir höfðu síðasta klukkutímann verið að vinna með talnalæsi, samskiptahæfni, orðaforða og margt fleira. Þeir höfðu verið að læra án þess að taka eftir því!

Hvernig á að velja spil fyrir kennslu?

Að velja spil er eins og að velja bók við hæfi. Það er ekki allt allra, og það hentar ekki allt öllum. Mörg börn sem njóta sín ekki í ýmsum fögum, njóta sín vel í spilum.

Helstu atriði sem þarf að hafa í huga þegar valin eru spil fyrir kennslu eru aldur (getustig leikmanna) og spilatími. Þeim mun yngri sem börnin eru, þeim mun betur henta minni spilahópar og styttri tími. Til dæmis hentar betur að hafa 6-7 ára börn í mörgum 2-3 manna hópum að spila mörg spil, hvort sem er eins spil eða mörg mismunandi. Hins vegar getur hentað að hafa einn stóran hóp að spila, ef kennarinn er stjórnandi spilsins.

Spilatíminn er mikilvægur, því hann þarf að henta þoli nemendanna og passa inn í kennslustundina. Spilin sem við mælum með fyrir kennslu er fljótlegt að læra og kenna, og taka stuttan tíma í spilun. Sum spilanna er auðvelt að laga að kennslustundinni með styttri útgáfu (til dæmis Kaleidos Junior).

Spil vinna með ólíka þætti. Í sumum þarf mikla snerpu, í öðrum þarf að beita rökhugsun og hugsa leiki fram í tímann. Sum kalla á sterka myndskynjun, á meðan önnur styrkja tilfinningu fyrir tölum og jafnvel reikningi.

Stærsti þátturinn sem spil þjálfa er rökhugsun. Í nær öllum spilum er notuð einhver konar stærðfræði, en það sem er ekki jafn augljóst er að spil þjálfa líka samskipti, tillitssemi, hógværð, að fylgja reglum, skiptast á, skipulag, og þolinmæði.

Síðast, en ekki síst, skiptir miklu máli hvernig við kynnum — og kennum — spil.

Spil sett í gang

Það er ekkert flóknara að setja spil í gang en önnur verkefni ef kennarinn kann spilið og er öruggur með hvernig á að setja spilið upp og hvernig spilið gengur fyrir sig. Áhugi og þekking kennarans er mikil forsenda fyrir velgengni spilatímans.

Ef kennari getur ekki svarað spurningum nemanda með öryggi og þarf að leita þekkingar annars staðar, til dæmis hjá öðrum eða í spilareglunum, þá er hætta á að áhugi barnsins hverfi.

Þegar spil hefur verið kennt inn og nemendur lært það, þá er mjög gott að spilið sé aðgengilegt nemendum. Þá er hægt að nota spilið sem gulrót eftir að þeir hafa lokið ákveðnum verkefnum. Ef börn kunna spilið vel geta þau séð um spilamennskuna sjálf, og enn skemmtilegra er þegar þau svo kenna bekkjarfélögum sínum spilið. Þá kemur margt skemmtilegt í ljós.

Linda að kenna spil á Vetrarhátíð í Ráðhúsinu 2013

Spil fyrir skóla- og félagsstarf

Við höfum sérvalið spil fyrir öll skólastig, félagsstarf og sérkennslu.

Karfa
;