Hver eru topp 5 hraðaspilin?

Skoðað: 17

Ef fólk vill skrúfa adrenalínið upp í botn, þá eru hraðaspil góð leið til þess. Þau keyra hart í keppnisskapið í okkur og skapa skemmtilegt andrúmsloft fullt af spennu og látum. Eða hvað? Þegar ég spurði nokkra starfsmenn Spilavina um topp 5 hraðaspilin þeirra, þá komu nokkur inn sem snerust jafnvel meira um snerpu hugans en handarinnar. Eins eru mörg spil þar sem auðvelt er að hvíla höndina og keppa um að vera fyrstur leikmanna til að segja lausnina.

Sum spil voru nefnd oftar en önnur, og sum komust ekki á listann en fengu samt að fljóta með sem næstum-á-listanum.

Topp 5 hraðaspilin eru 7!

1.-2. sæti: Geistes Blits / Taco, köttur, geit, ostur, pizza
3. sæti: Jungle Speed
4 sæti: Set
5.-7. sæti: Happy Salmon / Ligretto / Tvenna

Önnur spil sem fengu atkvæði voru: Flotter Otter, Wig Out, Ubongo, Flyin’ Goblin, Who did it?, Speedy Words, og Cobra Paw. Hér að neðan má sjá atkvæði hvers starfsmanns með skýringum.


Frosti

  1. Taco, köttur, geit ostur, pizza
    Það er hægt að spila þetta bæði með krökkum og fullorðnum, og það er alltaf fjörugt.
  2. Geistes Blitz
    Ég er mjög lélegur í þessu en mér finnst skemmtilegt hvernig maður er alltaf að svissa hugsunargangi á milli útilokunar og þess sem er eins.
  3. Flyin’ Goblin
    Hver fílar ekki að vera að ræna kastala og allir að skjóta á sama tíma í miklu fjöri? Safna peningum til að kaupa meira til að skjóta.
  4. Happy Salmon
    Fólk er að framkvæma hreyfingar til að losna við spil í mega stuði. Bara stuð.
  5. Who did it?
    Minnis-hraðaspil er skemmtilegt konsept sem ég fíla.

Svo verða tvö önnur að fylgja með. Annars vegar Caramba þar sem eru allir að gera á sama tíma og geta stolið af hver öðrum. Hraðaspil þar sem maður fær að vera leiðinlegur við hina. Og á hinum kantinum er Clack, sem er frábært til að spila með krökkum. Einfalt að læra og kenna.

Ingibjörg

  1. Jungle Speed
    Sígilt og mjög spennandi spil sem lætur mann vera á tánum allan tímann.
  2. Cobra Paw
    Einfalt og skemmtilegt og ég myndi fara í ef ég væri orðin leið á Tvennu.
  3. Tvenna
    Gott hraðaspil fyrir alla og það skiptir ekki máli hver er að spila það, það er alltaf jafn erfitt að finna hlutina á spilunum.
  4. Taco, köttur, geit, ostur, pizza
    Nýtt spil og fær fólk til að brosa og hlægja. Mæli með því fyrir stóra hópa.
  5. Set
    Gott spil fyrir þá sem eru ekki of fljótfærir.

Linda

  1. Taco, köttur, geit ostur, pizza
    Það er nýtt og spennandi. Ég er ótrúlega léleg í því, tapa alltaf, en finnst það samt skemmtilegt.
  2. Geistes Blitz
    Skemmtilegt að hugsa ekki bara um hvað er eins, heldur líka það sem vantar, sem setur hausinn á hliðina. Svo er hægt að bæta við reglum sem gera það enn erfiðara.
  3. Ligretto
    Frábært, því Kleppari er svo skemmtilegur. Ligretto er Kleppari fyrir fleiri en tvo, allt upp í 12.
  4. Jungle Speed
    Eitt af fyrstu hraðaspilunum sem sló í gegn hjá Spilavinum. Mér finnst ennþá gaman að grípa í það.
  5. Speedy Words
    Öðruvísi hraðaspil þar sem maður þarf að hugsa um orð (en ekki til dæmis form eða liti).

Svanhildur

  1. Ligretto
    Gamalt og gott hraðaspil sem virkar fyrir 2 til 12 spilara. Mér finnst gaman að vinna með talnarunur.
  2. Set
    Þvílikur heilabrjótur þar sem maður er bara að horfa og horfa … og finna þrennu!
  3. Geistes Blitz
    Svolítið lík rökhugsun og í SET, en sneggri. Hér er ekki nóg bara horfa og segja, heldur líka grípa! Svo eru frábærar aukareglur sem hvolfa manni alveg.
  4. Tvenna
    Mér finnst mikill kosturað það er hægt að spila á marga vegu, en grunnreglan alltaf sú sama. Tvenna er myndræn skynjun í kappi um að finna tvo eins. 
  5. Jungle Speed
    Einvígi og spenna. Keppni í að skynja og grípa.

Hraðaspilið sem er inni hjá mér þetta árið en rataði ekki á listann er Taco, köttur, geit, ostur, pizza. Það fylgir því gleðisprengja og mikill hlátur. Skiptir litlu máli hvernig þér gengur, það er svo gaman að vera með.

Sölvi

  1. Flotter Otter
    Mér finnst það svo nægilega flókið einhvern veginn, með aðeins meiri dýpt en hin spilin á listanum því það er hægt að koma að hlutunum á tvo mismunandi vegu.
  2. Geistes Blitz
    Trixið með að spilin eru blönduð, sum eru einföld og maður á bara að grípa hlutinn en hin eru með þessu aukaskrefi þar sem maður þarf að finna út hvað á að grípa.
  3. Jungle Speed
    Ég hef bara spilað það svo oft og átt það svo lengi að það er bara good reliable. Skemmtilegt konsept að rífast um keflið í miðjunni. Spennan við að bíða eftir næsta spili.
  4. Set
    Það er meira í heilanum. Þetta er flóknara en hin spilin og það er mikið í boði. Fólk er að stara á borðið og svo allt í einu segir einhver Sett!
  5. Taco, köttur, geit ostur, pizza
    Það er bara svo fyndið og kjánalegt.

Mig langaði svo að nefna sérstaklega Clack. Það er svo fínt fyrir breiðan hóp. Svo er svo flott hvernig flísarnar smella saman með klakkinu.

Þorri

  1. Wig out
    Þetta er svo fallega einfalt, með svo miklu kaosi að ég get ekki annað en sett það efst á listann.
  2. Ubongo
    Í grunninn er þetta hraðakeppni í einskonar Tetris og mér finnst það bara svo skemmtilegt.
  3. Taco, köttur, geit ostur, pizza
    Fjörugt, fíflalegt og ég gleymi aldrei þegar ég sá þetta spil spilað fyrst. Ég hreinlega varð að fá að taka þátt.
  4. Geistes blitz
    Hraðakeppni í að leysa einfalda þraut. Ég átti smá erfitt með að gera upp á milli cortex og Geistes Blitz (og er enn með valkvíða)
  5. Happy salmon
    Annað spil sem fyllti mig valkvíða. Mér finnst þetta svo skemmtilega hávært og líkamlegt að ég valdi það framyfir Pit, sem er annað hávært og skemmtilegt spil.

Önnur spil sem mig langaði að setja á listann voru t.d. Speed cups, Go Go Gelato, og Dr. Eureka sem eru allt klassísk keppni í að raða upp hlutum á undan hinum. Öll góð. Eins átti ég erfitt með að velja á milli Geistes Blitz og Cortex sem er með fjölbreyttari þrautir en í Geistes Blitz, en þar leyfði ég einfaldleikinn að sigra. Annað valkvíðaspil var Pit, en það er eitt háværasta spil sem ég hef spilað. Eins og lauma þar sem allir eru að gera í einu og mega skiptast á við hvern sem er. Ef þú ert ekki að taka þátt í því, þá mæli ég með að vera í öðru herbergi með lokað á milli. Að lokum átti ég erfitt með að setja ekki Who did it? á listann. Frábært spil sem á vel heima á topp 5 listanum, en það var bara ekki pláss hjá mér.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;