Sumarnámskeið Spilavina

Spilavinir bjóða nú upp á í fyrsta skipti vikulöng sumarnámskeið fyrir börn. Á námskeiðinu verða kennd og spiluð ýmis spil og útileikir. Á hverjum degi prófum við eitthvað nýtt og spennandi. Smáspil, borðspil, klassísk spil og mannspil verða tekin fyrir og að sjálfsögðu spilum við Varúlf. Farið verður í vettfangsferðiri. Í þeim munum við spila ýmsa útileiki,  Kubb, Cross Boules og prófum að spila elsta þekkta spil mannkyns eins og það var spilað fyrst: með steinum í holum.

Spil efla mann í mannlegum samskiptum og rökhugsun. Þau eru eitt besta lærdómstólið fyrir allt frá stærðfræði til tungumálsins. Það er þroskandi að leika sér og við stefnum á að allir fari af námskeiðinu klárari og skemmtilegri en þegar þeir komu. Námskeiðin eru kennd af starfsfólki sem hefur áralanga reynslu af barnastarfi. Þau eru auk þess reyndir spilakennarar eftir að hafa kennt spil í mörg ár á bekkjarkvöldum Spilavina.

namskeid2Í sumar verður boðið upp á tvö námskeið. Námskeiðin verða haldin eftir hádegi, frá kl. 13:00 – 16:00. Annars vegar verður námskeið fyrir 8-10 ára og hins vegar fyrir 10-13 ára. Pláss er fyrir 16 krakka á hvoru námskeiði. Námskeiðin fara fram í salnum undir nýrri verslun Spilavina, bláu húsunum í Skeifunni, Suðurlandsbraut 48. Allir þurfa að taka með sér nesti og vera klæddir eftir veðri.

  • 8 – 12 júlí. –  8 – 10 ára
  • 15 – 19 júlí. –  10 – 12 ára

Skráning

Skráning á sumarnámskeið Spilavina er hafin. Skráning fer fram í gegnum tölvupóst á netfanginu spilavinir@spilavinir.is en einnig er tekið á móti skráningum í versluninni sjálfri eða í síma 553-3450.

Námskeiðsgjald er 12.000 kr. fyrir 5 daga námskeið.

Ný Wasgij púsl!

Það voru loksins að koma ný Wasgij púsl til landsins og að þessu sinni eru þau tvö. Það kom bæði ný mynd í Mystery og Destiny línunni. Í tilefni þess verðum við með 15% afslátt af öllum Wasgij púslunum okkar í dag og á morgun, 7. og 8, júní. Mystery púslið gerist í austurlanda hraðlestinni og Inspector Poirot er við það að leysa gátuna um hver rændi farþegana. Destiny myndin sýnir okkur rólegt sveitaþorp og lestarstöð. Það var svo gaman að ferðast í þá daga. En hvernig ætli það sé í dag?

Töfrandi heimur af nýjum vörum

Djeco er franskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í leikföngum, spilum og púslum.Vörurnar þeirra eru einstaklega glæsilegar og vel hannaðar. Púslin þeirra eru sérstaklega fallega myndskreytt og spennandi fyrir börn niður í allt að 12 mánaða gömul. Við fengum líka fullt af nýjum og skemmtilegum smáspilum fyrir allan aldur. En það sem er kannski mest spennandi fyrir marga eru galdravörurnar frá þeim.

Galdrasettin frá Djeco innihalda fjölbreytileg töfrabrögð og galdra sem munu undra og heilla áhorfendur. Ungir galdrameistarar þjálfa með sér sjálfsöryggi og félagsfærni með því að sýna hópum galdrana sína. Með því að æfa sig fyrir framan spegil geta krakkarnir fullkomnað töfrabrögðin og sýnt fjölskyldu og vinum nýju hæfileika sína.

Með öllum töfrasettunum fylgja vandaðir hlutir og saga sem hjálpar til við að búa til töfraheim af undri og ráðgátum sem töframaðurinn notar til að heilla áhorfendur upp úr skónum. Allir galdrarnir koma í fallegri bók til þess að töframaðurinn geti falið leyndarmál sín í bókahillunni án þess að nokkurn gruni.

Djeco galdrarnir eru mis flóknir að læra og fullkomna. Þeir eru þó allir mjög spennandi og henta börnum frá 6 til 14 ára.  Settin eru misstór og flottar sem afmælisgjafir frá 1950 kr. Til að sjá sýningu með töfrabrögðunum getur þú farið á: http://www.djeco.com/magic/

Catan: Oil Spring spilakvöld

Svo skemmtilega vill til að Erik Assadourian, annar höfunda Catan: Oil Springs viðbótarinnar, er á Íslandi á vegum Norðurlandaráðs að fjalla um nýjustu skýrslu Wordwatch. Hann hafði samband við Spilavini og bauðst til að halda spilakvöld til að kenna á þessa áhugaverðu viðbót við Catan spilaflokkinn. Auðvitað þáðum við boðið!

Við áttum ekki spilið fyrir, þannig að Erik ætlar að koma með nokkur eintök. Þess vegna bjóðum við þér núna, með svona stuttum fyrirvara, á sérstakt spilakvöld mánudaginn 3. júní klukkan 20:00 með sérstaka áherslu á Catan: Oil Springs. Áhugafólk um Catan, áhugafólk um spilahönnun og áhugafólk um góða skemmtun — við sjáumst í skemmtilegu spilakvöldi.

Langar þig að læra að ljúga, blekkja og svindla í spilum?

Þetta eru miklivægir eiginleikar í nokkrum skemmtilegum spilum sem Spilavinir munu kenna í Ráðhúsinu á Vetrarhátíð.

Spilavinir er verslun með spil og púsluspil á Langholtsvegi. Síðustu ár hafa Spilavinir mætt á bekkjarkvöld og kennt börnum og foreldrum þeirra aragrúa af spilum. Kvöldin hafa vægast sagt slegið í gegn. Markmiðið með spilakvöldum er að skapa gleði hjá foreldrum og börnum og kenna þeim að njóta samverunnar yfir skemmtilegu spili.

Spilavinir verða nú í Ráðhúsinu á Vetrarhátíð 9. og 10. febrúar frá 13-17. Hinir stórskemmtilegu og reyndu starfsmenn Spilavina mæta á svæðið með úrval borðspila og smáspila sem þau munu kenna gestum og gangandi. Spil eru ódýr og skemmtileg afþreying sem kynslóðirnar geta auðveldlega sameinast um.

Spilavinir hvetja alla – börn, foreldra, afa, ömmur og góða vini til að taka þátt í þessum skemmtilega viðburði sem sameinar alla í fjölskylduvænum borðspilum.