Dr. Eureka og Kingdomino fá Gullna peðið

Það er þekkt í mörgum geirum atvinnulífsins að verðlauna það sem vel gengur. Við þekkjum flest til gull- og platínuplatna sem tónlistarfólk fær fyrir mikla sölu. Í borðspilaheiminum kallast þessi verðlaun Gullna peðið, og eru veitt af United Board Game Publishers (UEJ) þegar spil hefur náð 250.000 eintaka sölu.

Svo skemmtilega vill til að tvö spila sem fást í Spilavinum fengu þessi verðlaun í febrúar síðastliðnum (en við vorum bara að frétta það í síðustu viku). Það eru Dr. Eureka, sem fékk Gullna peðið og Kingdomino, sem fékk þrefalt Gullna peðið fyrir 750.000 eintök seld. Fleiri spil sem fást hjá okkur hafa hlotið þessi virtu verðlaun, sem — eins og í tónlistariðnaðinum — ná upp í platínu.

Svona verðlaun eru mikils virði fyrir borðspilaheiminn því þau sýna fram á heilbrigði greinarinnar, og verðlaunar vinnu útgefenda, hönnuða og listamanna sem að spilunum standa.

Spilavinaspjallið opnar á Facebook

Við vorum að opna hóp á Facebook sem heitir Spilavinaspjallið. Þar er vettvangur til að leiðbeina hvert öðru með reglur og jafnvel kenna húsreglur; spyrjast fyrir um hvaða spil hentar spilahópnum, og segja frá áhugaverðum spilum sem við vorum að uppgötva, hvort sem spilið er gamalt eða nýtt. (Sjálfur uppgötvaði ég ekki hið stórkostlega Concordia fyrr en í fyrrahaust — Þorri.)

Verið velkomin á Spilavinaspjallið 🙂

Alþjóðlegi sushi dagurinn … í gær!

Rétt eftir kvöldmat í gær lærðum við að það væri alþjóðlegi sushi dagurinn, sem hefði verið gullið tækifæri til að skella sér á eina volcano rúllu eða nokkur ljúffeng nigiri. En það er ekki of seint að bjóða ykkur afslátt í tilefni dagsins, er það nokkuð? Skellið ykkur á sushi-spil á 20% afslætti í tilefni gærdagsins.

Tilboðið gildir aðeins í dag, 19. júní 2019!

Clue: Klassískt spil í mörgum búningum

Clue (einnig þekkt sem Cluedo) er eitt fárra borðspila sem hefur verið gerð bíómynd eftir — og nokkuð góð, meira að segja. Spilið sjálft er frá 1949 en gæti verið nýtt, því það hefur elst ofboðslega vel.

Annar hópur spila sem Clue er í, er „spil sem hafa farið í fjölda búninga“, en Clue er til í klassískri, nýrri, barna, Star Wars, Game of Thrones, Harry Potter, og fleiri og fleiri útgáfum.

Clue er klassískt morðgátuspil fyrir alla fjölskylduna.