Fjör í Spilavinum á Alþjóðlega borðspiladaginn 2017!

Skoðað: 0

Það verður nóg um að vera hjá okkur í Spilavinum um helgina. Við fögnum, höldum spilamót í Carcassonne, 7 Wonders, Pandemic og X-Wing, ásamt spilakynningum, kennslu og uppákomum.

En fyrst er það fjölskylduspilastundin okkar á föstudaginn. Undanfarna föstudaga hafa fjölskyldur hist í Spilavinum til að spila og skemmta sér saman undir leiðsögn okkar. Við kennum spilin og sjáum til þess að allir skemmti sér vel. Að venju hefst spilastundin kl. 17 og lýkur kl. 19.

Á laugardaginn opna Spilavinir klukkan 11 og fólk kemur til að spila á Alþjóðlega borðspiladeginum. Allir eru velkomnir og frjálst er að grípa í hvaða spil sem við eigum opið, eða hreinlega mæta með sín eigin spil og bjóða öðrum gestum að vera með.

Fram eftir degi til klukkan 18 er bæði skipulögð og óskipulögð dagskrá. Hægt er að kaupa kaffi og jafnvel með því á notalega litla kaffihúsinu okkar í búðinni, og nóg verður um að vera.

Pandemic Survival mótin okkar eru orðin nokkuð þekkt en þar keppa tveir saman í liði í Pandemic á móti öllum hinum liðunum. Allir spila sama spilið sem haldið er utan um af stjórnanda og vinnur það lið sem endist lengst eða finnur lækningarnar fyrst. Það verður að skrá sig fyrirfram í þetta mót og fá fyrstu 8 liðin þátttökurétt en plássið er því miður takmarkað.

Við höldum síðan eins og venjulega Íslandsmeistaramótið í Carcassonne en sigurvegari þess öðlast þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem haldið er í Essen ár hvert. Spilaðir verða 2ja manna leikir með grunnspilinu. https://www.facebook.com/events/750382131803029/

Þá verður stórt mót í 7 Wonders með glæsilegum verðlaunum. Mótið hefst klukkan 16:00 og spila allir 3 leiki en fjöldi leikmanna við hvert borð fer eftir fjölda þátttakenda í mótinu. Spilað er með grunnspilið eingöngu og er þátttökugjald 1000 krónur sem fer í vinningana. https://www.facebook.com/events/811914002297885/

Eins og áður sagði verður spilað til kl. 18 í búðinni og tryggt að allir skemmti sér vel enda er þetta eiginleg árshátíð þeirra sem hafa gaman af spilum.

Á sunnudaginn er svo X-Wing mót og hefst það 10:30. Mótið er að sjálfsögðu opið öllum X-wing spilurum að vanda og er alveg kjörið fyrir þá sem ekki hafa tekið þátt í móti að spreyta sig!

Dagskrá laugardaginn 29. apríl:

  • 11:00 – SPILAVINIR OPNA – Fólk sest niður og byrjar að spila það sem þeim langar.
  • 12:00 – PANDEMIC SURVIVAL – 16 Manna útsláttarkeppni í Pandemic niðri í sal.
  • 14:00 – CARCASSONNE mót – Keppt verður um Íslandsmeistaratitilinn. :)
  • 16:00 – 7 WONDERS mót – Mót í 7 Wonders með glæsilegum verðlaunum.

Að lokum viljum við bæta því við að við verðum með kynningar á vinsælustu spilunum okkar og hægt verður að fá kennslu. Þetta er því kjörið tækifæri til að gera sér glaðan dag, spila saman og njóta þess að vera til.

Sjáumst í Spilavinum!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;