Friends FjarSvar

Fyrst það er að verða útséð með að geta boðið ykkur velkomin í Spilakaffi í PubQuiz og aðra skemmtilega viðburði á næstunni, þá ætlum við að prófa að setja saman einn viðburð yfir vefinn. Hann Valdi okkar ætlar að sjá um það, enda okkar helsti sérfræðingur í hópviðburðum.

FjarSvarið verður tileinkað Friends. Hversu mikið veist þú um Friends? Nú er tækifærið til að komast að því. FjarSvarið hefst fimmtudaginn 5. nóvember kl. 21:00.

Þátttökugjald eru litlar 2.500 kr. á lið: Sigurvegararnir fá vegleg verðlaun í boði Spilavina (auk heiðursins að vita mest um Friends). Þeir sem greiða fyrir lið fá sendan hlekk að streyminu. Streymið fer í loftið 20:50 og hefst keppnin stundvíslega kl. 21:00.

Hver veit nema þetta verði að föstum viðburði hjá okkur? Eru einhver sérstök þemu sem þú myndir vilja í FjarSvar? Láttu okkur vita í kommentunum.

Viltu vinna 20.000 króna gjafabréf í Spilavinum?

Í dag hefjum við Stjörnuleik Spilavina, verðlaunaleik þar sem þið gefið spilum lýsandi og heiðarlega stjörnudóma, og við gefum einhverju ykkar 20.000 króna gjafabréf í Spilavinum!

Finnið spil á vefnum okkar sem ykkur finnst skemmtilegt, skrifið umsögn og gefið stjörnur. Þannig er einn dómur kominn í hús.

Reglurnar eru einfaldar. Þið megið skrifa eins marga dóma og þið viljið. Hver dómur er einn miði í þessu skemmtilega happdrætti. Eina sem við biðjum um er að dómurinn sé hjálplegur öðrum spilurum, svo þau átti sig betur á hvort spilið henti þeim eða ekki. Hvað er það sem ykkur líkar til dæmis best við spilið? Hvaða spili líkist það? Svoleiðis pælingar.

Við drögum úr öllum stjörnudómum sem gerðir eru frá og með deginum í dag og fram á næsta laugardag, 7. nóvember. Sunnudaginn 8. nóvember drögum við svo einn heppinn stjörnugjafa sem fær 20.000 króna gjafabréf í verðlaun.

[Viðbót, skrifuð 9. nóvember]

Við erum búin að draga vinningshafa í stjörnuleiknum okkar. Það bárust alls 899 umsagnir, og hafa aldrei fleiri borist í þessum leik! Til að velja vinningshafann fengum við Google til að velja fyrir okkur tölu af handahófi.

Vinningshafinn er Þorsteinn Atli Kristjánsson, og fær hann að launum 20.000 króna gjafabréf í Spilavinum.

Um leið og við óskum Þorsteini til hamingju með sigurinn, þá viljum við líka þakka ykkur öllum sem tókuð þátt í að auðga vefinn okkar með umsögnum, og hjálpa þannig öðrum að finna spil sem hentar þeim.

Samvera er lykillinn að góðu fríi

Nú er sá tími ársins kominn þar sem börnin okkar fá þrjá aukadaga við helgina sína — vetrarfrí! Tiltölulega nýlegt fyrirbæri hér á landi, en er að ná að festa rætur — og hver veit, kannski fær fullorðna fólkið að vera með líka einn daginn. Sum okkar eru svo heppin að geta tekið sér frí á sama tíma og fengið gæðatíma með grislingunum. Samveran er dýrmæt og um að gera að njóta hennar. Spil eru frábær leið til að kynnast krökkunum betur, og leyfa þeim að kynnast þér. Hvernig spilari ertu? Hvaða spil eru á boðstólunum? Hér eru nokkrar hugmyndir sem við höfum flokkað fyrir ykkur.

Lesa meira

Smáspil: Hvað er vinsælast?

Vinsælustu smáspilin okkar

Ef það er einhver spurning sem við reynum að forðast, þá er það „hvað er vinsælast?“. Ástæðan er að þó svo eitthvað spil sé vinsælt, þá þýðir það alls ekki að það henti öllum. Til dæmis hefur góður spilavinur okkar engan áhuga á að spila Splendor — spil sem hefur selst í yfir milljónum eintaka. Honum finnst vont að fá ekki að hugsa fram í tímann, því borðið breytist svo ört. Okkur hinum finnst það einmitt kostur, því það sleppir manni við svoleiðis vangaveltur og maður getur slappað af á meðan aðrir gera, og bara brugðist við því sem er á borðinu þegar að manni kemur.

Lesa meira

Breytingar vegna COVID

Kæru viðskiptavinir, vegna ástandsins lokum við klukkan 18 alla daga fram til 20. október. Af sömu ástæðu er leiksvæðið lokað, sem og salurinn niðri. Vegna fjöldatakmarkana getum við ekki heldur boðið gestum okkar að setjast niður á kaffihúsinu. Ef ykkur langar í mjög gott kaffi (americano, latté, cappuccino…), þá er hægt að kaupa kaffi í ferðamáli hjá okkur. Við hvetjum ykkur til að nota grímur þegar þið komið til okkar í verslunina.

Ef ykkur langar í skemmtilega samverustund yfir spili, þá hvetjum ykkur til að nota vefverslunina okkar, og sækja hingað á Suðurlandsbrautina eða fá sent heim. Ef þið viljið sækja en getið/megið/viljið ekki koma inn, hringið bara í okkur og við komum með pokann út. Förum varlega.

Saman getum við komið COVID í viðráðanlegt horf aftur.