Sofandi drottningar

Skoðað: 23

Kortaspilið Sofandi drottningar hefur lengi verið eitt vinsælasta spilið í Spilavinum. Það kom út 2005 en hönnuðurinn fékk hugmyndina að því 2003, þá sex ára gömul. Miranda Evarts var fyrsti spilahönnuðurinn á barnsaldri sem fékk spilið sitt gefið út á alþjóðlegum markað. Hún fékk góða hugmynd og naut síðan aðstoðar fjölskyldu sinnar til að koma henni í framkvæmd.

Þannig varð spilið að einhverskonar fjölskylduverkefni. Hún segir sjálf að það hafi verið mikið spilað í fjölskyldunni. Allavega einu sinni í viku var spilakvöld þar sem allir nutu þess að spila saman og svo voru spilin notuð sem tæki til að æfa sig í stærðfræði og rökhugsun.

Fjölskyldan byrjaði á því að teikna og skrifa á venjulegan spilastokk. Fyrst drottningarnar, svo kónga og riddara og loks dreka. Smátt og smátt fengu spilin nöfn úr daglega lífinu. Það voru alltaf pönnukökur þannig að sjálfsögðu varð að vera pönnukökudrottning sem dæmi.

Þegar spilið var tilbúið prófuðu foreldrarnir að hafa samband við spilaframleiðandann Gamewright. Fjölskyldan átti mörg spil frá þeim. Þeir hjá Gamewright urðu strax mjög hrifnir, fannst spilið frumlegt og áhugavert og vildu fá eintak um leið til að prófa innanhús.

Miranda Evarts, hönnuður spilsins.
Miranda Evarts, hönnuður spilsins.

Oft gerist það að spil breytast mikið eftir að þau koma úr höndum hönnuðarins. Framleiðendurnir hafa oft aðrar hugmyndir um grafík, gangverk og einstaka hugmyndir. Það var þó ekki raunin með sofandi drottningar. Spilið hélt sér furðuvel í gegnum allt ferlið, svo vel að Jimmy Pickering, teiknari spilsins, byggði alla sína vinnu á upprunalegu teikningum fjölskyldunnar.

Spilaframleiðandi eins og Gamewright fær sendar fleiri hundruð hugmyndir að spilum á hverju ári en á endanum eru það sex til átta spil sem fara í framleiðslu. Sofandi drottningar varð fljótlega eitt af vinsælustu spilum Gamewright enda höfðar það til margra og þrælsniðugt.

Spilið hefur unnið til fjölda verðlauna og er enn eitt vinsælasta barnaspilið sem Spilavinir hafa til sölu. Nú var að koma út sérstök afmælisútgáfa og er hún í betri kassa úr málmi og hefur fleiri drottningar og kónga.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;